Samband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt umsögn um frumvarp innviðaráðherra um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Í umsögninni er mælt með því að frumvarpið verði að lögum á yfirstandandi löggjafarþingi.
Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru einkum þessar:
Samspil sveitarstjórnarlaga og kosningalaga
Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum sveitarstjórnarlaga sem fjalla um íbúakosningar sveitarfélaga. Þær reglur sem nú gilda um slíkar íbúakosningar má annars vegar finna í sveitarstjórnarlögum og hins vegar er vísað til þess að um kosningarnar skuli gilda meginreglur kosningalaga eftir því sem við á. Þessi almenna vísun til kosningalaga hefur í einhverjum tilvikum valdið túlkunarvanda við framkvæmd íbúakosninga.
Eins og rakið er í skýringum við frv. er markmið þess að einfalda og skýra þær reglur sem gilda um íbúakosningar sveitarfélaga. Sú leið sem er lögð til í 5. gr. a. er að lögfest verði almennt ákvæði sem gildi um allar tegundir íbúakosninga á vegum sveitarfélaga, sem verði 133. gr. laganna.
Meginreglan verður sú að slíkar kosningar fari fram á grundvelli reglna sem sveitarfélögin setja sér sjálf. Til að tryggja að gætt sé að grundvallaratriðum lýðræðislegra kosninga og að framkvæmd íbúakosninga og niðurstöður þeirra njóti trausts meðal íbúa sveitarfélaganna er lagt til að ráðuneytið setji reglugerð þar sem mælt er fyrir um þau atriði sem fram þurfa að koma í reglum sveitarfélaga um íbúakosningar og að ráðuneytið staðfesti með nægilegum fyrirvara kosningareglur sveitarfélags.
Kosningarréttur í íbúakosningum
Í 5. gr. a. er lagt til að sveitarstjórnum verði veitt heimild til að lækka kosningaaldur í tilteknum íbúakosningum í 16 ár. Um er að ræða ákvæði sem er að einhverju leyti í gildi í bráðabirgðarákvæði V. kafla sveitarstjórnarlaga sem fjallar um rafrænar kosningar. Nú er hins vegar lagt til að reglan verði lögfest varanlega og að hún eigi við allar íbúakosningar sveitarfélaga.
Áður hafa verið lögð fyrir Alþingi frumvörp um að lækka kosningaaldur almennt í sveitarstjórnarkosningum í 16 ár, án þess að þau hafi náð fram að ganga. Með frumvarpi þessu er gengið skemmra en tillagan byggir engu að síður á sambærilegum sjónarmiðum.
Undirbúningur sameiningar sveitarfélaga
Í 4. gr. frv. eru lagðar til tvær breytingar á ákvæðinu sem varða feril sameininga sveitarfélaga. Annars vegar er lagt til að kynningarfrestur vegna tillögu um sameiningu sveitarfélaga sé færður úr tveimur mánuðum í 36 daga. Er það gert til að samræma ákvæði sveitarstjórnarlaga um kynningarfresti vegna íbúakosninga ákvæðum kosningalaga. Hins vegar er gert ráð fyrir að sveitarstjórn hafi eingöngu eina umræðu um tillögu sameiningarnefndar í stað tveggja. Hins vegar er í 1. gr. frv. lagt til að ákvörðun um að kjósa samstarfsnefnd vegna sameiningar sveitarfélaga þurfi tvær umræður í viðkomandi sveitarstjórnum.
Sambandið er sammála því að ákvörðun sveitarstjórnar um að kjósa slíka samstarfsnefnd um undirbúning sameiningar sveitarfélaga er mikilvæg og rétt sé að hún komi tvisvar til umfjöllunar sveitarstjórna. Reynsla af undirbúningi sameiningarkosninga á þessu kjörtímabili gefur jafnframt tilefni til að styðja tillögu um að stytta frest til kynningar á tillögu um sameiningu sveitarfélaga og að fækka umræðu um slíka tillögu úr tveimur í eina.
Eins og fram kemur í skýringum er eðli sameiningarkosninga með þeim hætti að slíkar kosningar fara fram í fleiri en einu sveitarfélagi. Sveitarfélög sem standa að sameiningarkosningu þurfa þ.a.l. að gera sameiginlegar reglur um slíka kosningu en gert er ráð fyrir því að í reglugerð ráðherra verði fjallað nánar um þau atriði sem fram þurfa að koma í reglum um sameiningakosningar eins og fram kemur í 4. gr.
Nýtt ákvæði um rafrænar íbúakosningar
Í 5. gr. b er mælt fyrir um nýtt ákvæði, sem verður 134. gr. sveitarstjórnarlaga og fjallar um rafrænar íbúakosningar. Ákvæðið er sambærilegt bráðabirgðaákvæði við V. kafla sveitarstjórnarlaga en það ákvæði gildir eingöngu til ársins 2023.
Í ákvæðinu er sveitarstjórn heimilað að ákveða að íbúakosning skv. 133. gr. fari fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Ákvörðun sveitarstjórnar er háð því að að Þjóðskrá Íslands staðfesti að til staðar sé kosningakerfi sem uppfyllir öll skilyrði reglugerðarinnar um rafrænar íbúakosningar. Athygli er vakin á því að gildissvið ákvæðisins hefur verið rýmkað og tekur það nú til allra tegunda íbúakosninga, þ.m.t. sameiningarkosninga, en áður gilti það eingöngu um íbúakosningu sem fram fór á grundvelli 107. gr. sveitarstjórnarlaga.
Viðbrögð við umsögnum í samráðsgátt
Í samráðsferli bárust umsagnir frá Sveitarfélaginu Hornafirði, Dalabyggð og Reykjavíkurborg. Í öllum umsögnum var tekið jákvætt í efni frumvarpsins og kom þar fram áhersla á að lögfesta þurfi varanlega heimildir sveitarfélaga til rafrænna íbúakosninga. Í 5. kafla skýringa með frumvarpinu er lýst viðbrögðum við ábendingum í umsögnum og hafa verið gerðar breytingar á frumvarpsdrögunum til að mæta ábendingum frá Dalabyggð og Reykjavíkurborg. Veigamesta breytingin kemur fram í 1. mgr. 3. gr. þar sem bætt er inn orðalagi um að sveitarstjórn geti ákveðið að almenn atkvæðagreiðsla fari fram meðal íbúa sveitarfélagsins eða hluta íbúa, um einstök málefni.