Fréttir og tilkynningar
Þjónusta opinberra aðila og einkaaðila kortlögð
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur falið Byggðastofnun að vinna þjónustukort í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. Kortið á að sýna á aðgengi landsmanna að þjónustu hins opinbera og einkaaðila m.t.t. aðgerða sem þörf er á. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar.
Gjaldfrjáls aðgangur að jafnlaunastaðalinum
Gjaldfrjáls aðgangur hefur verið veittur að jafnlaunastaðlinum (ÍST 85:2012 – Kröfur og leiðbeiningar) skv. samningi velferðarráðuneytis og Staðlaráðs Íslands. Nálgast má staðalinn á vefnum ist85.is.
Ekki sjálfgefið að kosningaþátttaka aukist
Samband íslenskra sveitarfélaga telur mikilvægt, að grundvallarbreytingar á kosningarétti byggi á vönduðum grunni. Tilraunaverkefni í Noregi leiddi t.a.m. í ljós, að lækkun kosningaaldurs í 16 ár hefði lítil áhrif á kosningaþátttöku ungs fólks á aldrinum 16-18 ára.
Svæðisbundin flutningsjöfnun
Opnað verður fyrir styrkumsóknir vegna svæðisbundinnar flutningsjöfnunar 1. mars. nk. Byggðastofnun sér um úrvinnslu styrkumsókna og er tekið er við umsóknum í gegnum umsóknargátt á vef stofnunarinnar.
Samstarf um að efla nýsköpun hjá hinu opinbera
Marta Birna Baldursdóttir, sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, sagði nýlega frá væntanlegu samstarfi fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að endurvekja nýsköpunarverðlaun í opinberri stjórnsýslu og þjónustu og gera jafnframt könnun á nýsköpun hjá hinu opinbera. Verðlaunin voru síðast veitt á árinu 2015.
Greinargerð um notendastýrða persónulega aðstoð á Norðurlöndum
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman greinargerð um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) á Norðurlöndum. Nauðsynlegt er að mati sambandsins að slík greinargerð liggi fyrir, en Alþingi hefur nú meðferðar frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir, sem felur í sér lögfestingu NPA sem þjónustuforms.
Vanda verður betur til verka
Gangi þær róttæku breytingar á lögheimilisskráningum eftir, sem lagðar hafa verið til í frumvarpsdrögum um lögheimili og aðsetur, gæti það dregið verulegan dilk á eftir sér. Auk réttaráhrifa á skiptingu útsvarstekna og réttindi íbúa, þá eru þar ákvæði sem grafa undan skipulagsvaldi sveitarfélaga til lengri tíma litið. Nægileg greining á áhrifum frumvarpsins á sveitarfélög hefur ekki farið fram, segir m.a. í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Skipulagsnefnd sambandsins hefur einnig ályktað um málið.
Dagur leikskólans 2018
Þriðjudaginn 6. febrúar nk. verður dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins í 11. sinn, en þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Leikskólar landsins hafa á undanförnum árum haldið upp á dag leikskólans með margbreytilegum hætti og þannig stuðlað að jákvæðri umræðu um leikskólastarfið.
Betri lausnir í opinberri þjónustu með samsköpun
Samsköpun (e. cocreation, d. samskabelse) hefur átt vaxandi fylgi að fagna í evrópskum nágrannalöndum okkar á undanförnum árum. Hér á landi hefur þessi áhugaverða hugmyndafræði enn ekki vakið teljandi athygli, svo vitað sé.
Styrkir fyrir sveitarfélög til að setja upp opin þráðlaus net í almenningsrýmum
Evrópusambandið hefur ákveðið að veita sveitarfélögum styrki til að fjármagna uppsetningu opinna þráðlausra neta í almenningsrýmum, s.s. á torgum, í almenningsgörðum og opinberum byggingum s.s. bókasöfnum og heilsugæslustöðvum. Íslensk sveitarfélög geta sótt um.
Endurmenntunarsjóður grunnskóla hefur opnað fyrir umsóknir
Stjórn Námsleyfasjóðs auglýsir eftir umsóknum í Endurmenntunarsjóð grunnskóla vegna endurmenntunarverkefna skólaárið 2018-2019. Umsóknarfrestur er til og með 21. febrúar 2018.
Betri framtíð fyrir landsbyggðirnar
A better future for Europe´s rural areas er athyglisverð skýrsla sem sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins samþykkti á haustþingi sínu í fyrra. Fjallað er með greinargóðum hætti um tækifæri og áskoranir dreifbýlla svæða og hvernig takast megi á við þau.
Öryggisstefna og áhættumat grunnskóla vegna meðferðar persónuupplýsinga
Grunnskólum landsins bíður nú það verkefni, að innleiða öryggisstefnu og áhættumat vegna meðferðar persónuupplýsinga. Þó að rekja megi tildrög þess aftur til álits Persónuverndar frá árinu 2015 vegna Mentor-málsins svonefnda, mun þessi vinna auðvelda aðlögun skólakerfisins að nýjum persónuverndarlögum, þegar þar að kemur.
Umhverfiskönnun Gallup
Ríflega helmingur landsmanna eða samtals 57% telja að sveitarfélög hafi náð árangri í að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda, samkvæmt niðurstöðum nýjustu könnunar Gallup á viðhorfum landsmanna til umhverfis- og loftslagsmála. Þá segjast sex af hverjum tíu hafa upplifað afleiðingar loftslagsbreytinga í sveitarfélagi sínu, aðallega í hækkandi hitastigi, og rétt rúmur helmingur segir of lítið gert hér á landi vegna loftslagsbreytinga.
Styrkir til meistaranema
Samband íslenskra sveitarfélaga veitir styrki til lokaverkefna á meistarastigi sem fjalla um sveitarstjórnarmál. Umsóknarfrestur er til og með 11. febrúar.
Lækkun kosningaraldurs
Hugmyndir um lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár hafa verið til umfjöllunar í norrænum grannríkjum, en ekki leitt til almennra breytinga samkvæmt upplýsingum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur aflað frá öðrum norrænu sveitarfélagasamböndunum. Í samantekt Önnu Guðrúnar Björnsdóttur, sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs, kemur m.a. fram að málið hafi náð lengst í Noregi, þar sem kosningaaldur var í tilraunaskyni lækkaður í 16 ár í sveitarstjórnarkosningum 2011 og 2015.
Málefni barna með geð- og þroskaraskanir
Samband íslenskra sveitarfélaga gengst fyrir umræðu- og upplýsingafundi um málefni barna með geð- og þroskaraskanir á Grand hóteli, föstudaginn 9. febrúar nk.
Byltingar kosta sitt
Ríkið verður að veita opinberu skattfé til sveitarfélaga í takti við þann þau nýju útgjöld, sem gildistaka breyttra laga um félagsþjónustu mun velta yfir á þau, að sögn Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga. Gangi fyrirhugaðar lagabreytingar eftir vantar að minnsta kosti 100 m.kr. á ári inn í þá akstursþjónustu sem ætlunin er að sveitarfélögin sjái um. Fámennari og dreifbýlli sveitarfélög standa verst að vígi gagnvart þessum fyrirhuguðu breytingum.