Fréttir og tilkynningar
Áfangastaðaáætlanir landsins kynntar
Ferðamálastofa gengst fyrir kynningu á öllum sjö áfangastaðaáætlunum landsins á Hótel Sögu þann 15. nóvember nk. kl. 13:00-16:00.
Samspil 2018
Samspil 2018 er fræðsluátak um starfsþróun í þágu menntunar fyrir alla. Átakið er ætlað öllum sem koma að skóla- og fræðslustarfi og er þátttakendum að kostnaðarlausu.
Umsögn sambandsins um fjárlagafrumvarpið
Samband íslenskra sveitarfélaga telur að margt megi betur fara í frumvarpi til fjárlaga 2019, eins og ítarleg umsögn þess um málið er til marks um. Auk þess sem frumvarpið þykir í heild sinni ógagnsætt og torskilið, eru athugasemdir gerðar við fjölmörg málefnasvið, þ.á.m skatta og tryggingargjald, persónuvernd, almenningssamgöngur, húsnæðismál, þjónustu við fatlað fólk, ferðaþjónustu og fræðslumál, svo að eitthvað sé nefnt. Helstu athugasemdir hafa nú verið teknar saman í aðgengulegu yfirliti.
Umræðu- og samráðsfundir vegna kjaraviðræðna 2019
Kjarasvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur að undanförnu verið á ferð og flugi um landið vegna komandi kjaraviðræðna. Starfsmenn sviðsins hafa fundað með sveitarfélögum allra landshluta að höfuðborgarsvæðinu undanskildu, en fundað verður með sveitarfélögum innan SSH í byrjun næstu viku.
Tölfræði heimsmarkmiðanna
Mikilvægur liður í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er mótun staðlaðra mælikvarða eða vísa. Alls hafa 232 slíkir mælikvarðar verið skilgreindir og eru 164 þeirra komnir með skilgreinda aðferðarfræði. Af þeim hafa 67 verið gerðir aðgengilegir fyrir Ísland í samstarfi verkefnastjórnar heimsmarkmiðanna við Hagstofu Íslands undir yfirskriftinni Tölfræði heimsmarkmiðanna.
Ísland ljóstengt – opið fyrir umsóknir
Fjarskiptasjóður hefur nú opnað fyrir umsóknir um styrki í átaksverkefninu Ísland ljóstengt fyrir árið 2019. Átaksverkefnið er eitt af lykilverkefnum í byggðaáætlun stjórnvalda en markmið þess er að byggja upp ljósleiðarakerfi utan markaðssvæða í dreifbýli um allt land. Sveitarfélögum stendur nú einnig til boða að sækja um samvinnustyrk sem valkost við umsókn á grundvelli samkeppnisfyrirkomulags.
Sveitarfélögin og drög að aðgerðaáætlun í plastmálefnum
Kallað er eftir beinum aðgerðum á vegum sveitarfélaga í fimm af þeim 18 tillögum sem lagðar eru til í drögum samráðsvettvangs umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðaáætlun í plastmálefnum. Aðgerðirnar varða allt frá grænum innkaupum að skólphreinsun og flokkun úrgangs.
Evrópumál og sveitarfélögin
Upplýsingarit Sambands íslenskra sveitarfélaga um Evrópumál er komið út. Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hefur margs konar áhrif á starfsemi sveitarfélaga og fjallar ritið á aðgengilegan hátt um það helsta sem sveitarfélög þurfa að vera upplýst um í Evrópumálum.
Standa verður rétt að framsali ráðningarvalds
Umboðsmaður Alþingis beinir því til sveitarfélaga, að standa verði rétt að valdaframsali vegna starfsmannaráðninga. Umboðsmaður hefur birt almenna samantekt á þeim lagaatriðum og sjónarmiðum sem sveitarfélög þurfa að hafa í huga svo að ráðning starfsfólks fari að lögum.
Starf sérfræðings í úrgangsmálum og umhverfismálum
Samband íslenskra sveitarfélaga hyggst ráða sérfræðing í starf verkefnisstjóra á lögfræði- og velferðarsviði. Verkefnisstjórinn starfar ásamt sviðsstjóra og lögfræðingum sviðsins að margþættum og síbreytilegum verkefnum, sem tengjast einkum úrgangsmálum og öðrum fjölbreyttum áskorunum á sviði umhverfismála sem varða starfsemi sveitarfélaga.
Kynningarherferð Persónuverndar
Persónuvernd stendur fyrir kynningarherferð um landið vegna nýju persónuverndarlöggjafarinnar. Fundaröðin hefst á Akureyri í dag og lýkur í Reykjavík þann 26.nóvember nk.
Ráðherra vill fara finnsku leiðina
Ásmundur Einar Daðason, húsnæðismálaráðherra, talaði fyrir „finnsku leiðinni“ á Húsnæðisþingi 2018, sem fram fór í gær. Sú leið felur í sér að ríki og sveitarfélög vinni sameiginlega á þeim framboðsskorti sem herjar á stórhöfuðborgarsvæðinu í húsnæðismálum. Með stórhöfuðborgarsvæðinu á ráðherra við mun fleiri sveitarfélög en þau sem venjulega eru talin til þess og segir hann að viðræður séu þegar hafnar við nokkur af þeim.
Frábær frammistaða á Evrópumóti iðn- og verkgreina
Móttaka var nýlega haldin í Ráðherrabústaðnum fyrir fulltrúa Íslands á Evrópukeppni iðn- og verkgreina, EuroSkills, sem fram fór í Búdapest á dögunum. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra færði keppendunum, sem voru átta að tölu, viðurkenningar fyrir frábæra frammistöðu.
Nýsköpunarkönnun 2018
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga standa fyrir nýsköpunarkönnuninni 2018, samnorrænni könnun sem er bæði ætlað að kortleggja nýsköpun hjá hinu opinbera og efla. Könnunin er hluti af Nýsköpunarvoginni, samnorrænni könnun sem ætlað er að kortleggja nýsköpun hjá hinu opinbera og um leið efla nýsköpun.
Misskilningur um gildissvið nýrra persónuverndarlaga innan skólasamfélagsins
Persónuvernd hefur vakið athygli á misskilningi, sem gætt hefur í innleiðingu leik- og grunnskóla á nýjum persónuverndarlögum, í ábendingu sem stofnunin hefur sent frá sér. Samband íslenskra sveitarfélaga fagnar frumkvæði Persónuverndar í málinu. Um mikilvægar leiðbeiningar til skóla og sveitarfélaga sé að ræða, en lítill sem enginn aðlögunartími hafi verið gefinn vegna gildistöku löggjafarinnar.
Árbók sveitarfélaga 2018 komin út
34. árgangur af Árbók sveitarfélaga er komin út. Árbókin hefur í gegnum tíðina verið afar vinsæl meðal sveitarstjórnarfólks sem og margra annarra er láta sig sveitarstjórnarmál varða. Bókin er þægileg til uppflettingar og samanburðarrannsókna enda má finna þar ýmis konar tölfræði úr rekstri og starfsemi sveitarfélaga.
Um helmingur sveitarfélaga með yfir 90% mönnun réttindakennara
Alls eru 32 sveitarfélög, af þeim 62 sem reka grunnskóla, með allar eða nær allar kennarastöður mannaðar réttindakennurum. Þar af eru 26 sveitarfélög staðsett á landsbyggðinni. Á höfuðborgarsvæðinu ná fjögur af sex sveitarfélögum 90% mönnunarmarkinu. Í allri umræðu um kennaraskort heyrist þó gjarnan talað um að nýliðunarvandinn sé mun alvarlegri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.
Eyða verður óvissu vegna NPA
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur þann drátt sem orðið hefur á kostnaðarmati vegna innleiðingar sveitarfélaga á NPA-samningum. Þá er óboðlegt að NPA hafi verið lögfest sem þjónustuform, án þess að reglugerð lægi efnislega fyrir um framkvæmd þess og er því áríðandi, að mati stjórnarinnar, að málið verði rætt til hlítar á fyrirhugum fundi sambandsins með félags- og jafnréttisráðherra nú fyrir lok októbermánaðar.