Fréttir og tilkynningar
Aðgerðaáætlun um að draga úr plastmengun
Samband íslenskra sveitarfélaga telur brýnt að draga úr plastmengun og lýsir áhuga á að ræða við umhverfis- og auðlindaráðherra um aðgerðir sem samráðsvettvangur um aðgerðir til að draga úr plastmengun hefur lagt fram. Þetta kemur fram í umsögn sambandsins um drög að aðgerðaáætlun til að draga úr plastmengun: „Með vinnu samráðsvettvangsins er stigið fyrsta skrefið í átt að þessu markmiði en áður en ákvarðanir eru teknar um val á leiðir þarf að liggja fyrir vönduð ábata- og kostnaðargreining um þær mögulegu leiðir sem samráðsvettvangurinn bendir á. Af hálfu sambandsins er eindregið tekið undir lokaorð skýrslunnar um að tillögurnar nýtist til að vinna áfram að verkefninu en þar er jafnframt lögð áhersla á að víðtækt samráð verði haft við haghafa um að koma þeim í framkvæmd.“
Fyrstu skrefin á níu tungumálum
Innflytjendaráð hefur í samvinnu við Fjölmenningarsetur og velferðarráðuneytið gefið út upplýsingabæklinginn Fyrstu skrefin í nýrri og uppfærðri útgáfu. Í bæklingnum er fjallað um helstu atriði sem fólk þarf að vita við flutning til Íslands. Hann var síðast uppfærður árið 2011.
Jöfn tækifæri til tónlistarnáms
Undirritað var í dag nýtt samkomulag ríkis og sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám. Samkomulagið er til ársins 2021 og er ætlað að jafna aðstöðumun til tónlistarnáms á framhaldsstigi og söngnáms á mið- og framhaldsstigi, auk þess að festa betur í sessi fjármögnun þessara námsgreina. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður og Karl Björnsson, framkvæmdastjóri, undirrituðu samkomulagið fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga, en Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að hálfu ríkisins.
Stafræn framtíð hins opinbera – hvernig byrjum við?
Dagur upplýsingatækninnar 2018, UT-dagurinn, fer fram 6. desember nk. með ráðstefnu á Grand hóteli í Reykjavík. Yfirskrift dagsins er stafræn framtíð hins opinbera – hvernig byrjum við?
Nýjar reglugerðir sem lúta að þjónustu við fatlað fólk
Birtar hafa verið fimm nýjar reglugerðir vegna þjónustu við fatlað fólk og eftirlits með aðbúnaði á heimilum og stofnunum sem þjóna fötluðum. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem tóku gildi 1. október síðastliðinn og er ætlað að stuðla að umbótum hver á sínu sviði.
Fyrsta heilbrigðisstefna landsins í mótun
Sveitarfélögin hafa mikilvægu hlutverki að gegna innan heilbrigðiskerfisins með þeirri þjónustu sem þeim ber að veita samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um málefni aldraðra og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í drögum að heilbrigðisstefnu, þeirri fyrstu sem hefur verið mörkuð hér á landi, er lagt til að ákvarðanir um heilbrigðisþjónustu séu teknar sem næst þeim sem þurfi á þjónustunni að halda.
Takmarka skal aðgang að persónuupplýsingum
Gæta verður að meðalhófsreglu nýrra persónuverndarlaga, þegar starfsmönnum er veittur aðgangur að persónugreinanlegum upplýsingum. Í úrskurði Persónuverndar vegna aðgangs starfsmanna sveitarfélags að upplýsingum í þjóðskrá, kemur fram að meðalhófsregla persónuverndarlaga takmarki aðgang að upplýsingum við þá sem þurfi nauðsynlega á þeim að halda starfs síns vegna.
Jarðvegur fyrir miðhálendisþjóðgarð kannaður
Textadrög að fyrstu verkefnum þverpólitískrar nefndar, sem vinnur nú að stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands, eru nú til umsagnar í samráðsgátt ríkisins. Sveitarfélög eru hvött til að kynna sér tillögur nefndarinnar og skila inn umsögn um málið. Einkum eru þau sveitarfélög sem liggja að hálendinu hvött til að láta sig málið varða. Málið snertir þó öll sveitarfélög landsins, með einum eða öðrum hætti.
Nýjar aðferðir við orkuöflun
Eftirspurn eftir raforku er nú þegar umfram framboð hér á landi, segir í nýrri skýrslu sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur látið gera um nýjar aðferðir við orkuöflun. Vindorka, lítil vatnsorkuver og varmaorka eru þeir orkukostir sem taldir eru líklegastir til að leysa úr stóraukinni orkuþörf á næstu áratugum. Sveitarfélög gegna lykilhlutverki fyrir orkubúskap þjóðarinnar.
Undanþágur frá starfsleyfi veittar með skilyrðum
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur veitt Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalaxi hf. undanþágur vegna sjókvíaeldis á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði með skilyrðum. Tímabundið starfsleyfi heimilar Arctic Sea Farm framleiðslu á 600 tonnum á ári og Fjarðalaxi 3.400 tonnum á ári. Starfsleyfin falla úr gildi í síðasta lagi þann 5. september 2019.
Skipun öldungaráðs
Í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 m.s.br. er kveðið á um skipan öldungaráðs sveitarfélaga. Þessu ráði er ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagsins.
Fyrsta skóflustungan tekin hjá Byggðastofnun
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, tók nýlega fyrstu skóflustunguna að nýju skrifstofuhúsnæði fyrir Byggðastofnun á Sauðárkróki. Nýju húsnæði er ekki aðeins ætlað að leysa úr húsnæðisvanda stofnunarinnar heldur fylgir hönnun þess einnig eftir stefnumörkun úr byggðaáætlun 2018-2024.
European Youth Capital 2022
European Youth Capital eða höfuðborg unga fólksins í Evrópu er titill sem Ungmennasamtök Evrópu (e. European Youth Forum, EYF) veita evrópskri borg eða bæ til eins árs í senn. Markmiðið er að stuðla að aukinni valdeflingu ungs fólks og efla þátttöku þess í samfélaginu.
Úthlutun á verkefnastyrkjum í byggðaáætlun vegna sóknaráætlana
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur veitt landshlutasamtökum sveitarfélaga níu verkefnastyrki á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024. Þetta er í fyrsta sinn sem framlög úr byggðaáætlun eru sett í samkeppnispott og þeim úthlutað að fengnum umsóknum. Stendur til að fjölga slíkum samkeppnispottum jafnt og þétt á næstunni, að sögn Sigurðar Ing Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Áfangastaðaáætlanir allra landshluta kynntar
Áfangastaðaáætlanir landshlutanna voru kynntar á fjölsóttum kynningarfundi í gær, en verkefnið er það umfangsmesta sem unnið hefur verið á grundvelli Vegvísis í ferðaþjónustu. Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hvetur sveitarfélög eindregið til þess að kynna sér áætlanirnar. Mikilvægt sé að þær nýtist sveitarfélögum og landshlutum til uppbyggingar.
Heimsmarkmiðin og sveitarfélögin
Nordregio, Norræna byggðastofnunin, hefur gefið út skýrslu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sveitarfélög á Norðurlöndum. Skýrslan nefnist Global goals for local priorities: The 2030 Agenda at local level og fjallar um brautryðjendur í innleiðingu eða first movers. Af þeim 27 sveitarfélögum sem skýrslan nær til eru tvö íslensk eða Kópavogur og Mosfellsbær.
Vímuefnavandi ungmenna
Í morgun efndi Náum áttum hópurinn til morgunverðarfundar undir yfirskriftinni Vímuefnavandi ungmenna – hvar getum við gert betur? Aukin neysla ungs fólks á ávana- og fíkniefnum og normalísering slíkrar neyslu var á meðal þess sem fjallað var um.
Frestur vegna jafnlaunavottunar framlengdur um ár
Fresturinn hefur verið framlengdur til 31. desember 2019. Tekur til allra fyrirtækja og stofnana, óháð stærð þeirra, að þeim aðilum undanskildum sem eru að hálfu eða að meirihluta í eigu ríkisins og með 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli.