Með nýju atvinnuátaki stjórnvalda „Hefjum störf“ er stefnt að því að skapa allt að sjö þúsund tímabundin störf. Atvinnuátakið er í samvinnu atvinnulífsins, opinberra stofnana, sveitarfélaga og félagasamtaka. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, telur að átakið muni verða öllum til góðs.
Markmiðið með átakinu er að skapa allt að 7 þúsund tímabundin störf í samvinnu við atvinnulífið, opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Ráðgert er að verja um 4,5 til 5 milljörðum króna í átakið.
Atvinnuleysi var 11,4 prósent í febrúar og í síðasta mánuði var greint frá því að atvinnuleysi hér á landi væri það mesta á Norðurlöndunum. 4.719 manns höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok febrúar og þeim fjölgaði um 200 í síðasta mánuði. Þeir eru meira en tvöfalt fleiri en á sama tíma í fyrra.
Fá styrki með nýjum starfsmönnum
Átakið á að gera litlum og meðalstórum fyrirtækjum auðveldara að ráða starfsmenn og búa sig þannig undir bjartari framtíð. Fyrirtæki sem hafa færri en 70 starfsmenn geta ráðið atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í 12 mánuði eða lengur með ríflegum stuðningi.
Hverjum nýjum starfsmanni mun fylgja allt að 472 þúsund króna stuðningur á mánuði, auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að sex mánuði. Fyrirtæki geta ráðið eins marga starfsmenn og það þarf þangað til að heildarfjöldi starfsmanna hefur náð 70.
Ráðningartímabilið er sex mánuðir, frá apríl til desember.
Fyrir sveitarfélög og opinberar stofnanir
Til að koma til móts við þann hóp sem er við það að fullnýta bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur ekki fengið atvinnu við lok bótatímabilsins verður farið í sérstakar aðgerðir til að aðstoða einstaklinga í þessum hópi við að komast aftur inn á vinnumarkað.
Vinnumálastofnun mun greiða ráðningarstyrk í allt að sex mánuði, og er heimilt að lengja um aðra sex fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu, vegna ráðningar einstaklinga sem eru við það að ljúka bótarétti.
Stofnuninni verður heimilt að greiða ráðningarstyrki sem nema fullum launum samkvæmt kjarasamningum að hámarki 472.835 krónur á mánuði auk 11,5% mótframlags í lífeyrissjóð.
Skilyrði er að ráðinn sé einstaklingur sem á sex mánuði eða minna eftir af bótarétti.
Þá er sveitarfélögum einnig heimilt að ráða til sín einstaklinga sem fullnýttu bótarétt sinn innan atvinnuleysistryggingarkerfisins á tímabilinu 1. október. til 31. desember 2020.
Það er mikilvægt að fólk fái störf með þeim launum sem boðin eru þarna sem eru mun hærri en fjárhagsaðstoð sem þau myndu hugsanlega fá ef þau fengju enga vinnu eftir að þau missa bótarétt í atvinnuleysistryggingakerfinu. Þannig í raun hefur þetta þau áhrif að þetta dregur úr vexti útgjalda til fjárhagsaðstoðar og styrkir útsvarsstofn sveitarfélaga. Og í raun og veru græða allir á þessu. Ég efast ekki um að sveitarfélögin muni taka vel í þetta verkefni og búa til þau störf sem þarf til að þau standi við sinn hlut í þessu.
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.