Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur, að beiðni Alþingis, sent sveitarfélögum bréf þar sem óskað er upplýsinga um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í leikskólum og grunnskólum sl. 10 ár.
Í beiðni Alþingis kemur fram að lítið sé til af heildstæðum upplýsingum um rakaskemmdir og myglu í fasteignum og áhrif þeirra á þá sem þar dvelja. Með skýrslubeiðninni er þess farið á leit að tekinn verði saman kostnaður leikskóla og grunnskóla vegna tjóns af völdum rakaskemmda og myglusvepps á húsnæði og að safnað verði upplýsingum um áhrif þeirra á heilsu starfsfólks. Vonast er til að svörin nýtist til þess að áætla umfang vandans og varða leiðina til þess að útrýma þessum vágesti.
Fyrirspurn ráðuneytisins til sveitarfélaga skiptist í þrennt:
- Kostnað vegna niðurrifs og endurbyggingar.
- Áhrif á starfsmenn og nemendur.
- Útgjöld vegna röskunar á starfsemi leikskóla og grunnskóla af völdum rakaskemmda og myglusvepps.
Áþekk skýrslubeiðni var lögð fram á 149. löggjafarþingi og var hún umfangsmeiri og beint til forsætisráðherra. Þeirri skýrslubeiðni hefur nú verið skipt í þrennt og beint til þeirra ráðherra sem fara með málefnasvið sem rakaskemmdir í fasteignum og áhrif þeirra falla undir, þ.e. til félags- og barnamálaráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra.