Skipulagsstofnun stendur, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir morgunfundi um skipulag landbúnaðarlands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 8.30-10.00.
Skipulagsstofnun stendur, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir morgunfundi um skipulag landbúnaðarlands fimmtudaginn 28. nóvember kl. 8.30-10.00.
Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Skipulagsstofnunar í Borgartúni 7 (kjallara, gengið inn um port á austurhlið) og verður honum streymt á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar. Húsið opnar kl. 8:00 og hefst dagskrá kl. 8:30. Óskað er eftir skráningum á fundinn hér (ekki er þörf á að skrá sig til að fylgjast með streymi). Dagskrá fundarins er að finna hér að neðan.
Skipulag í dreifbýli
Nýting lands í dreifbýli er meðal þess sem sveitarstjórnir móta stefnu um við skipulagsgerð, svo sem hvaða landi er ráðstafað til landbúnaðarnota. Í gildandi landsskipulagsstefnu er sett fram markmið um fjölbreytta og hagkvæma nýtingu landbúnaðarlands í sátt við umhverfið og lögð áhersla á að landi sem hentar vel til ræktunar verði almennt ekki ráðstafað til annarra nota með óafturkræfum hætti. Í landsskipulagsstefnu er jafnframt sett fram markmið um að vexti sé beint að þeim kjörnum sem fyrir eru og að í dreifbýli tengist fjölgun íbúða fremur búrekstri eða annarri staðbundinni landnýtingu eða atvinnustarfsemi. En hvað er gott ræktarland og að hverju þarf að huga í tengslum við þróun byggðar og skipulag í dreifbýli? Á fundinum verður fjallað um þessi mál, þar á meðal um flokkun landbúnaðarlands, þróun byggðar í dreifbýli og vernd og endurheimt votlendis með tilliti til áhrifa á samfélag, landslag og loftslag.
Morgunfundaröð um landsskipulagsstefnu
Fundurinn tilheyrir morgunfundaröð Skipulagsstofnunar um landsskipulagsstefnu. Stofnunin vinnur nú að tillögu til umhverfis- og auðlindaráðherra að viðauka við gildandi landsskipulagsstefnu þar sem lögð er áhersla á þrjú viðfangsefni, loftslag, landslag og lýðheilsu. Á næstu mánuðum verða kynnt margvísleg verkefni sem unnið er að í tengslum við mótun landsskipulagsstefnu, meðal annars um loftslagsaðgerðir í þéttbýli, lýðheilsuáherslur við skipulagsgerð, kortlagningu víðerna og flokkun landslagsgerða. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með á www.landsskipulag.is.
Dagskrá
08:00 | Húsið opnar - heitt á könnunni |
08:30-10:00 | Skipulag í dreifbýli Ásdís Hlökk Theódórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar |
Flokkun og skipulag landbúnaðarlands Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur |
|
Forsendur fyrir flokkun landbúnaðarlands Jón Guðmundsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands |
|
Kolefnisspor landnotkunar Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice |
|
Umræður |