Í kjölfar flutnings stjórnarmálefnisins mannréttinda frá dómsmálaráðuneyti til forsætisráðuneytis hefur forsætisráðherra ákveðið að hefja vinnu við grænbók um mannréttindi.
Lögð verður áhersla á víðtækt samráð við vinnu grænbókarinnar og því verða opnir samráðsfundir um landið um stöðu mannréttindamála. Á hverjum fundi verður kastljósi beint að mannréttindamálum á Íslandi, helstu áskorunum framundan og tækifærum með tilliti til áherslna stjórnvalda, sem m.a. endurspeglast í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Öll eru velkomin en þátttakendur eru beðnir að skrá sig. Gott aðgengi er á öllum fundarstöðunum fyrir hjólastóla og táknmálstúlkun stendur til boða sé þess óskað með 7 daga fyrirvara.
Dagsetning | Staður | Tími | Þátttaka |
29. ágúst | Selfoss | Hótel Selfoss | 16:00-17:30 | Skráning |
31. ágúst | Reykjavík | Ríma í Hörpu | 16:00-17:30 | Skráning |
5. september | Akureyri | Hamar í Menningarhúsinu Hofi | 17:00-18:30 | Skráning |
6. september | Egilsstaðir | Icelandair Hótel Hérað | 17:00-18:30 | Skráning |
8. september | Ísafjörður | Edinborgarhúsið | 10:00-11:30 | Skráning |
Grænbók um mannréttindi
Grænbók er yfirlit yfir stöðumat og valkosti og er undanfari frekari stefnumótunar. Við vinnuna verður lagt mat á stöðu mannréttindamála á Íslandi þar sem safnað er á einn stað upplýsingum um mannréttindi, þróun, tölfræði, samanburði við önnur lönd og samantekt um mismunandi leiðir eða áherslur til að mæta þeim áskorunum sem við blasa í mannréttindamálum, m.a. í tengslum við stofnun sjálfstæðrar innlendrar Mannréttindastofnunar.