Markmið vefsins Ísland.is er að bæta stafræna þjónustu við almenning og gera hana skýrari og hraðvirkari. Nú er unnið að því að einstaklingar geti nálgast upplýsingar um starfsleyfi sín í gegnum vefinn og þar ríða kennarar á vaðið.
Leyfisbréf, sem er staðfesting á réttindum til kennslu og til að bera starfsheitið kennari, eru aðgengileg með rafrænum skilríkjum á Mínum síðum á uppfærðum vef Ísland.is. Leyfisbréf sem gefin voru út fyrir 1. janúar 2020 munu bætast í gagnagrunninn á næstu misserum. Menntamálastofnun annast útgáfu leyfisbréfa til kennara og veitir nánari upplýsingar um þau. Nú er gefið út eitt leyfisbréf þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Sömuleiðis er unnið að því að birta niðurstöður samræmdra könnunarprófa grunnskólanema á vef Ísland.is og er þar þegar að finna niðurstöður nemenda sem tóku prófin árin 2020 og 2021.
Vinna við gerð gagnagrunnsins hófst vorið 2020 og er liður í fjárfestingarátaki vegna þróunar stafrænnar þjónustu. Verkefnið er unnið í samstarfi Menntamálastofnunar, Stafræns Íslands og háskólanna.