Mennta- og barnamálaráðherra boðaði til fyrsta Farsældarþings í Hörpu þann 4. september 2023.
Mikil þátttaka var á þinginu en um 800 manns mættu á það í Hörpu auk 200 manns sem tóku þátt í streymi. Meðal þátttakenda voru 38 börn tilnefnd af sveitarfélögum.
Á farsældarþingi fór fram víðtækt samtal þjónustuveitenda, barna, foreldra og stjórnvalda um farsæld barna en niðurstöður þingsins eru mikilvægar við stefnumótun og áætlanagerð við innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Steymt var frá farsældarþingi en dagskrá var tvískipt. Annars vegar erindi fyrir hádegi og hins vegar kveikjur/örkynningar m.a. frá börnum sem unnið var með í umræðulotum eftir hádegi.
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra opnaði þingið og kynnti m.a. nýjan vef um farsæld barna og mælaborð sem verður fljótlega opnað en þar verða á einum stað fjölþætt tölfræðigögn um stöðu barna og farsæld þeirra. Á þinginu voru einnig kynntar niðurstöður úr grunnrannsóknum farsældar ásamt niðurstöðum Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar (ÍÆ) en niðurstöður og gagnagrunn ÍÆ er hægt að nálgast í vefforriti.
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga var með ávarp á þinginu um „Farsæl sveitarfélög“. En næsti liður stefnumótunar í málefnum barna felur í sér að sveitarfélög skipa svæðisbundin farsældarráð sem er vettvangur fyrir svæðisbundið samráð um farsæld barna. Þar eiga sæti fulltrúar svæðisbundinna þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga. Svæðisbundin farsældarráð vinna áætlun um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða, í samráði við fulltrúa notenda, um farsæld barna til fjögurra ára sem tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna, framkvæmdaáætlun ríkisins og niðurstöðum farsældarþings.