Eitt af baráttumálum Sambands íslenskra sveitarfélaga er að ríkið komi að því með sveitarfélögunum að ljúka uppbyggingu á fráveitukerfum landsins. Sú umræða er ekki ný af nálinni og raunar voru sett lög árið 1995 um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga til ársins 2008. Náðust fram miklar umbætur um land allt á gildistíma lagannna. Óumdeilt er að verkefninu var hvergi nærri lokið enda voru aðstæður sveitarfélaga til þess að ráðast í stórar fjárfestingar á þessum tíma misjafnar.
Eitt af baráttumálum Sambands íslenskra sveitarfélaga er að ríkið komi að því með sveitarfélögunum að ljúka uppbyggingu á fráveitukerfum landsins. Sú umræða er ekki ný af nálinni og raunar voru sett lög árið 1995 um tímabundna endurgreiðslu virðisaukaskatts af fráveituframkvæmdum sveitarfélaga til ársins 2008. Náðust fram miklar umbætur um land allt á gildistíma lagannna. Óumdeilt er að verkefninu var hvergi nærri lokið enda voru aðstæður sveitarfélaga til þess að ráðast í stórar fjárfestingar á þessum tíma misjafnar.
Eðlileg fjármögnunarkrafa af hálfu sveitarfélaga
Í þessu samhengi er rétt að minna á, að sveitarfélög á Íslandi hafa verulegar skyldur á sviði umhverfismála. Í mörgum tilvikum er um að ræða innleiðingu löggjafar frá Evrópusambandinu, sem er skylt að lögfesta á Íslandi á grundvelli EES-samningsins og gerir skýrar kröfur í fráveitumálum. Þessum kröfum eru sveitarfélög landsins, eðli máls samkvæmt, misjafnlega vel í stakk búin til að mæta.
Það er eðlileg og réttmæt krafa, að þegar Alþingi samþykkir löggjöf sem felur í sér aukin útgjöld fyrir sveitarfélögin, komi ríkið að fjármögnun þeirra verkefna. Reynslan sýnir því miður að fátítt er að ríkið komi með beinum hætti að málum með þessum hætti, heldur er venjan almennt sú að sveitarfélögum er gert að standa ein undir slíkum fjárfestingum, á sama tíma og þeim ber einnig að fylgja ákvæðum sveitarstjórnarlaga um að skulda ekki meira en sem nemur 150% af reglulegum tekjum sínum.
Virðisaukaskattur á klóak- og fráveitukerfi?
Á landsþingi sambandsins sl. haust fögnuðu sveitarstjórnarmenn fréttum um að komið væri fram frumvarp þess efnis, að sveitarfélögum skyldi endurgreiddur virðisaukaskattur af fráveituframkvæmdum. Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Jón Gunnarsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, og á hann þakkir skildar fyrir frumkvæðið. Verra er reyndar, að nærri hálfu ári síðar er ekkert að frétta af málinu. Fyrsta umræða um frumvarpið hefur ekki einu sinni farið fram! Þetta verður að teljast með nokkrum ólíkindum, í ljósi mikilvægis málsins sem hér um ræðir.
Það skiptir sveitarfélögin miklu að fá endurgreitt sem nemur 20% af heildarkostnaði við fráveitumannvirki enda er hér um að ræða meiriháttar fjárfestingar á mælikvarða allra sveitarfélaga. Á meðan lagabreytingar sem sveitarfélögin hafa lengi kallað eftir ganga ekki í gegn, eru mestar líkur á að sveitarstjórnir haldi að sér höndum þrátt fyrir að óumdeilt sé, að þörfin á þessum framkvæmdum er mjög brýn víða um land.
Skorað á Alþingi að ljúka málinu
Fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu skora ég hér með á alþingisþingmenn að koma umræddu frumvarpi á dagskrá þingsins og tryggja því jafnframt brautargengi þannig að það verði að lögum fyrir þinglok í vor.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnarSambands íslenskra sveitarfélaga
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2019.