Aðilar vinnumarkaðarins hafa, ásamt fulltrúum ríkis og sveitarfélaga, undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirritaði fyrir hönd sveitarfélaga.
Aðilar vinnumarkaðarins hafa, ásamt fulltrúum ríkis og sveitarfélaga, undirritað sameiginlega viljayfirlýsingu gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirritaði fyrir hönd sveitarfélaga.
Vinnueftirlitið og velferðarráðuneyti fylgdu undirrituninni eftir með sameiginlegum morgunverðarfundi sem fram fór á Grand hótel í morgun undir yfirskriftinni – Áreitni á vinnustöðum, NEI TAKK!
Öllum stendur til boða að gerast aðilar að viljayfirlýsingunni með rafrænni undirritun á vef vinnueftirlitsins. Eru sveitarfélög og stofnanir þeirra hvött til að kynna sér málið.
Morgunverðarfundurinn var haldinn til að vekja athygli á mikilvægi þess að efla forvarnir á sviði vinnuverndar með sérstaka áherslu á einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
Fundurinn fór fram að frumkvæði stjórnar Vinnueftirlits ríkisins þar sem sæti eiga fulltrúar stærstu samtaka aðila vinnumarkaðarins auk fulltrúa ráðherra. Fulltrúi sambandsins í stjórn Vinnueftirlitsins er Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs.
Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar á Grand hótel í morgun. Sjá má Halldór Halldórsson, formann Sambands íslenskra sveitarfélaga, lengst til vinstri. (Ljósm. IH)
Íslensk lög og reglur kveða á um að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi á vinnustöðum skuli ekki liðið. Komi það upp skal bregðast við því með markvissum hætti. Öryggiskennd og góður starfsandi skipta sköpum fyrir vellíðan starfsmanna. Á vinnustaðnum eigum við góð samskipti og virðum eftirfarandi sáttmála:
- Við þekkjum stefnu og viðbragðsáætlun vinnustaðarins gegn einelti, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi og erum meðvituð um skyldur okkar.
- Við líðum ekki einelti, áreitni eða ofbeldi, beitum því ekki og vitum að meðvirkni með geranda getur skaðað starfsmenn og vinnustað okkar.
- Við berum sameiginlega ábyrgð á vinnuumhverfinu og leggjum okkar af mörkum til að bæta það enn frekar.
- Við erum ólík, með mismunandi bakgrunn og lífsskoðanir, en sýnum hvert öðru virðingu í öllum samskiptum.
- Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum og tilfinningum annarra.
- Við ræðum um framkomu sem okkur mislíkar og tökum upp varnir fyrir þá sem brotið er gegn.
- Við tökum tillit til ábendinga um að við getum bætt framkomu okkar.
- Við sýnum öðrum kurteisi og virðingu í öllum samskiptum.