Á fundi Sveitarstjórnarvettvangs EES EFTA sem fram fór nýverið var samþykkt ályktun um tillögur framkvæmdastjórnar ESB varðandi lágmarkslaun í Evrópu.
Tillögur framkvæmdastjórnar ESB um tilskipun um lágmarkslaun í Evrópu er ætlað að tryggja að allir fái sanngjörn laun fyrir vinnuframlag sitt. Auk þess er þeim ætlað að stemma stigu við „spekileka“ vegna mikils munar á launum þegar horft er til aðildarríkja ESB.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA styður þessi markmið framkvæmdastjórnar ESB, en leggur jafnframt áherslu á að tillögur framkvæmdastjórnar ESB megi ekki hafa neikvæð áhrif á þau kjarasamningsmódel sem fyrir eru í Evrópu og virka vel.
Þó svo að áform ESB séu góðra gjalda verð þá hafa þau valdið talsverðum áhyggjum, þar sem ákveðin hætta er talin á því að áform ESB varðandi lágmarkslaun kunni að hafa neikvæð áhrif á t.d. norræna kjarasamningsmódelið.
Í ályktun Sveitarstjórnarvettvangs EES EFTA er jafnframt bent á að mikill munur sé á ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins, bæði hvað varðar laun og aðferðir við að ákvarða laun. Nauðsynlegt sé að taka tillit til þess og því er lagt til að aðgerðir ESB verði ekki á formi tilskipunar (EU Directive) heldur verði frekar um leiðbeinandi tilmæli (EU Council Recommendations) að ræða.
Ljóst er að málið er gríðarlega mikilvægt fyrir Norræna atvinnurekendur og þ.m.t. íslensk sveitarfélög.
Ályktunina um lágmarkslaun í Evrópu.
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA
Sveitarstjórnarvettvangur EES EFTA fjallar um málefni sem varða Evrópusambandið og EES-samninginn. Í honum eiga sæti sex kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi frá Íslandi og Noregi og tveir áheyrnarfulltrúar frá Sviss. Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og landshlutasamtök sveitarfélaga tilnefna fulltrúa af hálfu Íslands.
Fulltrúar Íslands í Sveitarstjórnarvettvangi EES-EFTA
Einar Már Sigurðarson | Formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi |
Rakel Óskarsdóttir | Stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af sambandinu og varaformaður vettvangsins |
Hilda Jana Gísladóttir | Formaður Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra |
Jóhann Friðrik Friðriksson | Formaður Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum |
Ásgerður Kristín Gylfadóttir | Formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga |
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir | Stjórnarmaður í Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tilnefnd af Reykjavíkurborg |